Ein af helstu og skaðlegustu mýtum í húðflúrsbransanum verður viðfangsefnið í þessum fræðslupistli.
Margir vilja spara sér skildinginn þegar kemur að vali á húðflúrslistamanni, en raunin er oftast sú að það getur verið mun kostnaðarmeira ferli.
Sem dæmi:
X1 hefur mikla reynslu og færni og tekur 20-30.000 per klst fyrir unnið verk. Viðkomandi hefur mikið vit á vinnslu húðflúra og hefur þróað með sér gott auga fyrir staðsetningu, vöðvaflæði, stærðarmati, hvað mun eldast vel og hvað ekki, hann hefur góða þjálfun í dýptarskynjun og notast einungis við hágæða vörur. Hann vinnur sína teikni/hönnunarvinnu af natni útfrá viðeigandi rannsóknarvinnu og eigin listrænu hæfileikum. Verkið vinnur hann svo skilvirkt þar sem hann hefur byggt upp góðan vinnsluhraða á sínum árum og endar það í 1x sessioni sem tók 5 klst.
X2 fær sama verkefni. X2 er reynsluminni flúrari og hefur ekki öðlast jafn mikla færni á öllum áður upptöldum sviðum, teikni/hönnnunarvinna er síðri, ásamt uppsetningu flúrsins, staðsetningu, stærðarmati og svigrúmi til að eldast. Einnig þarf varla að nefna dýptarskynjun og vinnslufærni sem er ekki orðin nægilega þróuð. Þar sem flúrarinn hefur ekki náð skilvirkum hraða sem kemur með mikilli reynslu endar flúrið í 2-3 sessionum og jafnvel 6-7 klst hvert skipti.
Hvor listamaðurinn var ódýrari?
Hvor listamaðurinn skilaði verkefninu betur af sér?
Er þá samræmi á milli færni og verðlagningu?
Þegar öllu er á botninn hvolft kostaði síðra flúrið meiri pening. Þetta sjáum við gegnumgangandi í húðflúrsiðnaðinum á Íslandi. Algengast er að viðskiptavinurinn endar á að borga lagfæringu eða cover-up hjá færari flúrara og þarf jafnvel að fara í laser fjarlægingu fyrir þau ferli.
Hver er endanlegur kostnaðurinn þá? Sumir leggja ekki í framhaldskostnaðinn og sitja uppi með flúr sem þau eru óánægð með í áraraðir.
Þó það gæti verið freistandi að velja þann listamann sem lítur út fyrir að vera ódýrari á yfirborðinu með lámarks upplýsingar fyrir hendi um færni viðkomandi, er þvímiður staðreyndin sú að það er oftast langdýrasti kosturinn og getur orðið að tímafreknu og leiðinlegu ferli sem hefði mátt forðast ef upprunalega valið væri reynslumeiri og færari listamaður.
Vert er lika að benda á að ekki er alltaf samasem merki milli færni og verðlags. Eru mörg dæmi á Íslandi um það að reynslulitlir flúrarar með undir lámarksfærni séu að rukka jafnvel meira á tímann en þeir sem teljast undir þann hatt. Við mælum því með að kynna ykkur listamenn gaumgæfilega.

