Hvert er ábyrgðarhlutverk stofueigenda?
Í ört vaxandi heimi líkamslistar gegna eigendur húðflúrstofa mikilvægu hlutverki í því hvernig neytendur og samfélagið í heild sinni upplifir iðnaðinn og listformið. Þeirra hlutverk er ekki aðeins í stjórnun sinna fyrirtækja heldur einnig í eftirliti með hegðun og fagmennsku listamanna seim þeir ráða til vinnu. Þetta ábyrgðarhlutverk nær mun lengra en að veita rými fyrir húðflúrsstarfsemi, það felur í sér hæfileikann til að tryggja öruggt, traust umhverfi fyrir listamenn og neytendur og einnig að viðhalda virðulegu orðspori fyrir listgreinina.
Eigendum húðflúrstofa ber skylda til að koma á fót sterkum siðferðislegum ramma sem stjórnar því hvernig þeirra fyrirtæki starfar í þágu allra. Þetta felur í sér að skapa velkomið og öruggt umhverfi sem fylgir ekki einungis heilbrigðis og öryggisreglum Landlæknisembættis því nauðsynlegt er líka að setja upp væntingar gagnvart hegðun og framkomu starfsfólks. Með því að veita þjálfun í fagmennsku, þjónustu við viðskiptavini og siðferðislegri hegðun geta eigendur útbúið listamenn sína með þeim verkfærum sem þeir þurfa til að eiga jákvæð samskipti við viðskiptavini. Eigendur verða að setja fram skýrar siðareglur sem lýsa ásættanlegri hegðun og stuðlar að ábyrgðarmenningu innan stofunnar.
Eigendum húðflúrstofa ber grundvallarábyrgð á að fylgjast með og endurskoða hegðun listamanna sinna. Vera virkir í samtölum um hvað er að gerast í samskiptum við kúnna á samfélagsmiðlum, setja sig inn í aðstæður þar sem óöryggi gæti verið að myndast og vera virkur þáttakandi í stofulífinu með þeim tilgangi að geta verið í ábyrgri leiðbeinendastöðu.
Þegar mál koma upp, eins og þegar listamenn verða uppvísir að óviðeigandi hegðun gagnvart kúnnum, fjársvindli eða kynferðisofbeldi, verða eigendur að bregðast hratt og afgerandi við, í takt við alvarleika málsins. Ítarleg rannsókn skal fara fram og gögnum safnað saman sem tengjast málinu, samtöl skulu eiga sér stað við alla sem koma að máli og möguleg vitni svo staðreyndir séu skýrar. Stofueigandi þarf einnig að meta aðstæður, hvort alvarleiki málsins standi þannig að það eigi heima inná borði lögregluyfirvalda.Í kjölfarið þarf að grípa til tafarlausra aðgerða og þær aðgerðir þurfa að vera í takt við alvarleika málsins.
Kynferðisafbrot ætti alltaf að varða við tafarlausum brottrekstri. Fjársvindl ætti aldrei að eiga sér stað oftar en einusinni án brottreksturs og stofan ætti að bera fulla ábyrgð á því að bæta viðskiptavinum sínum fjárhagslegt tjón, án vafa.
Hegðun listamanna er alltaf á ábyrgð stofueigenda, því skal eigandi alltaf ígrunda vel þegar hann ræður inn nýtt starfsfólk, forsögu þess og vera viðbúinn að taka afleiðingum sem gætu fylgt. Sé eigandinn ekki búinn nægilegri tilfinningagreind, siðferðiskennd, visku og ábyrgðartilfinningu til að valda þessu, mætti setja stórt spurningamerki við hvort hann eigi yfir höfuð heima í þessu stjórnunarstarfi sem hann hefur skapað sér.

